<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, maí 31, 2005

Á morgun verð ég nítján ára. Svo sem ekkert merkilegt við það en hamingjuóskir eru vel þegnar þrátt fyrir það. Ekki fyrr en á morgun samt.

Í dag er fyrsti dagurinn minn í Loftkastalanum. Þetta er í rauninni eins og að vera í leikfélagsstjórn og fá borgað fyrir það. Mjög notalegt. Hápunktur dagsins var þegar Hilmir Snær labbaði framhjá miðasölunni, ekki einu sinni heldur tvisvar.

mánudagur, maí 30, 2005

Ég er komin heim. London var dásamleg. Ein tilnefning ætti að duga:

Maður ferðarinnar: Erla

Ég ætla ekki að blogga um London því ég vil helst hafa eitthvað til að tala um við fólk sem er úr holdi og blóði, með sál og innyfli og allt það. Bloggið á það nefninlega til að drepa öll mannleg samskipti í fæðingu. Frekar glatað.

Júlía Hermannsdóttir flaug upp á hásetalistanum enda búin að sýna það og sanna að hún á heima með toppfólki. Diljá er hins vegar komin í skammarsætið og situr þar þangað til hún brýtur odd af oflæti sínu og hættir að vera fræg og í sambandi. Valdið getur alveg farið með mig, mér finnst eins og ég sé guð. Viljið þið síðan vera svo væn að hringja í mig og leika við mig. Mér leiðist.

fimmtudagur, maí 26, 2005

Ég er þá farin. Bæbæ.

Ég sé fram á náið samstarf með honum í sumar:


miðvikudagur, maí 25, 2005

Lífið brosir við mér.

Ég er búin að fá vinnu í Loftkastalanum í sumar. Hér eru kostirnir við það:

1. Ég vinn með Steinunni í Nylon.
2. Ég vinn í miðbænum.
3. Ég upplifi fyrsta flokks leikhúsdrama (leikhúslíf er eins og One Tree Hill)
4. Ég get byrjað að vinna strax.
5. Ég byrja ekki að vinna fyrr en 12.

Gallarnir eru þónokkrir en ég ætla ekki að tíunda þá hér.

Hin vandamálin úr síðustu færslu eru einnig leyst. Foreldrar mínir ætla að lána mér pening fyrir London og í dag sleikti ég upp Sýslumanninn og hann framlengdi passann minn. Já, ég er bara að fara til London á morgun. Það verður nú aldeilis gaman.

þriðjudagur, maí 24, 2005

Á föstudaginn fer ég til London með Erlu. Ég á -710 kr. Ég á útrunninn passa. Ég er ekki með neina sumarvinnu. En einhvern vegin hef ég á tilfinningunni að allt eigi eftir að enda vel.

sunnudagur, maí 22, 2005

Þessari færslu verður skipt upp í tvo hluta með tilliti til tveggja hugtaka; skemmtilegt og leiðinlegt.

Leiðinlegt:

Ég fór í vinnuna í dag. Símasöluvinnuna. Ég seldi fullt af geisladiskum og talaði við furðulegu konuna sem vinnur með mér. Þegar ég fer að hugsa til baka var eiginlega ekkert svo leiðinlegt í vinnunni. Ég seldi Hjálmari Hjálmarssyni einn disk og hann lék á alls oddi með skemmtilegu röddina sína. Síðan hringdi ég næstum því í Ólaf Egil en hann var ekki heima.
Já, töfrar símasöluheimsins eru óendanlegir.

Skemmtilegt:

Ég fór á útskriftarsýningu Listaháskólans. Mér fannst hún reyndar ekkert sérstaklega góð, alltof mikið af einhverju sellout rusli, svona eitthvað myndbandarusl sem var ófrumlegt og asnalegt og ótrúlega mikið að reyna að fara yfir strikið en náði einhvern vegin aldrei til manns. En kannski er list bara svoleiðis. Hvað veit ég svosem?
Ég sá líka Gargandi Snilld eftir Ara Alexander. Það er heimildarmynd um íslenskt tónlistarlíf frá upphafi. Mér fannst hún frekar geðveik og eiginlega ekki frekar heldur bara fullt. Guð minn góóður hvað ég hlakka til að fara til Frankfurt að sjá Sigur Rós. Ég er að missa mig.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Kvöldið er búið að vera mjög einmanalegt án þess að ég hafi verið einmana í eiginlegum skilningi. Ég sá leikritið Rambó 7 í Þjóðleikhúsinu. Ein. Þegar ég ætlaði að lesa mér til um leikritið langaði mig að gubba þegar ég las þennan texta á vef Þjóðleikhússins:

Stjarna vaknar upp hjá fimmtugum höstler og röltir niður í eldhús. Þar situr Johnny við símann. Júlli sækó er týndur í Bosníu. Og svo kemur Pési burðardýr, á sínum eilífa flótta undan handrukkurunum.
Hvað hefurðu séð margar Rambómyndir? Má ekki bjóða þér beikon og egg? Eða sopa af kók? Einn smók? Ekki missa af leikritinu! Spennandi verk eftir nýjan höfund um ungu kynslóðina í dag.


Þetta átti sum sé að vera svona ýkt kúl leikrit sem hentaði unga fólkinu því það meikar ekki að sjá neitt annað en geðveikt mikið af ofbeldi og nekt og klámi og ógeði og skilur ekki neitt nema það sé á þeirra tungumáli og innihaldi orð eins og "höstler" og "motherfokker".

Sýningin var hins vegar ógeðslega góð. Leikararnir voru ógeðslega góðir, tónlistin var geðveik og stemmningin ótrúleg. Þetta var svona nútíma leikrit/bíómynd. Allt ótrúlega hipp og kúl og töff. Ég mæli sannalega með henni. Kannski á þessi sýning bara eftir að opna heim leikhússins fyrir unga fólkinu og tryggja leikhúsunum sess í afþreyingarpakka framtíðarinnar. Það væri að minnsta kosti ánægjulegt.

Eftir leikhús settist ég niður á tröppur og horfði á fólk. Ein. Síðan fór ég á kaffihús og fékk mér heitt súkkulaði. Ein. Þegar ég ætlaði að fara heim mætti ég nokkrum MH-ingum sem voru á leiðinni á lokaballið sem ég var búin að gleyma. Ég er svo glataður unglingur.

þriðjudagur, maí 17, 2005

Ég er svo löt að ég nenni ekki neinu.

Líf mitt í tölum:

Dagar þangað til ég fer til London: 9 dagar

Virkir dagar þangað til ég fer í London: 7 dagar

Fjöldi daga sem það tekur að endurnýja passann sinn: 10 dagar

Fjöldi króna sem það kostar að endurnýja passa á minna en 10 dögum: 400.000 kr.

mánudagur, maí 16, 2005

Svona á lífið að vera. Dagurinn fór í almenna leti á Austurvelli og kvöldið í grillveislu fræga og fallega fólksins. Gærdagurinn minnti óneitanlega dálítið á Sideways þegar þau sitja í grasinu með rauðvín og hlægja með sólina í bakgrunni.



Núna er ég að fara að vinna í nýju vinnunni minni. Ég sel geisladiska fyrir félagið Barnageð...hefuru heyrt um það? Nei það er félag foreldra og aðstandenda barna með ýmis konar geðraskanir. Já...nú erum við að gefa út geisladisk sem var sérstaklega gerður fyrir okkur af nokkrum að bestu tónlistarmönnum Íslands. Aha...diskurinn heitir "Við gefum von" og á honum koma fram meðal annars Jón Sigurðsson sem var í Idolinu í fyrra...haha já einmitt...Regína Ósk, Hera Björk, Margrét Eir og fleiri og fleiri. En nú erum við að gefa landsmönnum kost á því að eignast þennan frábæra geisladisk og styrkja í leiðinni gott málefni og hjálpa okkur að veita börnunum okkar betra líf. Má ekki treysta á þinn stuðning (nafn viðmælanda (sagt til að styrkja böndinn milli sölumanns og viðskiptavinar))?

Ég er sum sé að vinna í símasölu. Þetta segi ég svona áttahundruð sinnum á kvöldi. Rosalega gefandi.

Bæ.

föstudagur, maí 13, 2005

Ef ég væri svona tólf ára væri ég skotin í stráknum í Sparisjóðsauglýsingunum.



Mmmm.

mánudagur, maí 09, 2005

Skyndiákvörðun dagsins:

London með Erlu 27.-29. maí

Bókmenntatímabil dagsins:

20. öld

Samræmt próf dagsins:

Íslenska

Mállýska dagsins:

Skaftfellskur einhljóðaframburður

Dýr dagsins:

Íkorni


Ég hata myspace.com

sunnudagur, maí 08, 2005

Ég gerði dramatískar breytingar á hásetalistanum mínum. Finnur Kári, fyrrverandi 1. háseti var lækkaður í tign vegna slakrar frammistöðu en Erla Elíasdóttir komst í hóp þriggja bestu hásetanna, þó fyrr hefði verið. Sex nýjum einstaklingum var bætt í áhöfnina, flest blogg sem ég hef lesið heillengi en aldrei nennt eða kunnað við að bæta þeim á listann. Þar á meðal eru til dæmis nokkrir busalingar, skiptinemar, frægt fólk og djammarar.

Velkomnir í hópinn.

Oh fokk, klukkan er fimm.

Vísindaleg vinnubrögð:

Tilgáta:

Fólk sem heitir tveim nöfnum skírir börnin sín tveim nöfnum og fólk sem heitir einu nafni skírir börnin sín einu nafni.

Rannsókn:
Mér finnst fallegra að heita einu nafni og ég heiti einu nafni. Ingu finnst fallegra að heita tveimur nöfnum og heitir tveimur nöfnum.

Kenning:
Nafnasmekkur manna gengur í erfðir.

Kvikmynd kvöldsins:
Natural Born Killer (eins og svo oft áður). Það er svo kúúúl mynd.

Leikrit kvöldsins:
Riðið inn í sólarlagið.

þriðjudagur, maí 03, 2005

Ég er búin að eyða svona 6 klukkustundum af lífi mínu í ógeðslegustu afþreyingu sem til er.

mánudagur, maí 02, 2005

Á morgun geri ég aðra tilraun til að ná Stærðfræði 263. Síðast fékk ég 1. Þá skrifaði ég ekki neina tölustafi á prófið mitt heldur ljóð um stærðfræðiferil minn í MH. Mér þykir viðeigandi að birta þau hér, sem einhvers konar táknræna kveðju til STÆ 263.

Það var eitt sinn stúlka sem var kærulaus
hún viss' ekkert í sinn litla haus.
Hún fór í próf og ekkert hún gat
heldur horfð' útí loftið og sat og sat.

Og herskarar himnanna gáfu frá sér óp
vegna Hans sem að þetta fyrirbæri skóp
"hún kann ekk' að reikna" hrópuðu þeir hátt
"og hvað þá að teikna, hún á eitthvað bágt!"

Kennarar stundu og felldu tár
"hvað ertað hugsa?" spurði Jói sár
"ég hugs' ekki neitt og ekkert ég kann"
sagði stúlkan og þerraði sinn vota hvarm.

"Það er ekki skrýtið, þú verður að læra,
og glósa mínar inn í bók þína að færa.
Nú reyni ég ekki að vera vondur kall
en þú átt ekki skilið neitt nema FALL!"

Eins og sést eru þau ekki neitt sérstaklega vönduð heldur frekar tilviljannakenndar hugsanir mínar í stærðfræðiprófi. En núna kemur betri tíð með blóm í haga og ég ætla mér að taka þetta próf og...ná því.

sunnudagur, maí 01, 2005

Á morgun fer ég í þýskupróf...

...bara svona til að segja eitthvað.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com