<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Dagurinn í dag var góður þrátt fyrir að ég hafi séð gamla konu með þrífættan hund á gangi.

HTML-hæfileikar mínir hafa náð nýjum hæðum.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Fyrir mörgum árum fæddist lítið stúlkubarn á afskekktum stað austur á landi. Barnið var skírt í nafni guðs, jesú og allra þeirra, Sigrún og löngu síðar Didda. Stúlkan ólst upp við sveitastörf og sumarástir, mysu og músaveiðar. Þegar hún var á þrettánda ári fékk hún heimsókn frá frænku sinni sem söng fyrir hana bítlalög í hlöðunni og í algjörlega óbeinu framhaldi af því afréð hún að leggja land undir fót og flytja í borgina. Hún kvaddi foreldra sína, kyssti systkinahóp sinn bless og veifaði úr rútuni þangað til hún sá æskustöðvar sínar ekki lengur. Þegar til borgarinnar var komið fór hún í skóla, vann með fötluðum börnum og lét annað gott af sér leiða. Hún fór á böll eins og gengur með ungar stúlkur og eitt fagurt sumarkvöld gaf hún sig á tal við ungan mann. Maðurinn var með óviðráðanlegt ljóst hár, alskeggjaður og með skakkar tennur. Til að gera langa sögu stutta urðu stúlkan og pilturinn yfir sig ástfangin, ferðuðust um heiminn og eignuðust börn og buru. Pilturinn fór í tannréttingar og stúlkan litaði á sér hárið og ólu upp afkvæmi sín tvö af ástúð og réttsýni. Á sumrin fóru pilturinn og stúlkan með börnin sín austur á land á æskustöðvar stúlkunnar. Þar léku börnin sér, allsnakin, í grasinu og leyfðu sólinni að ylja sér. Þau fóru í göngutúra, kynntust dýrum sem þau höfðu aldrei áður augum litið og hlupu eins og þau ættu lífið að leysa undan herskáum kríunum.

Mörgum árum seinna, þegar börnin höfðu vaxið úr grasi, farin í föt, búin að rétta í sér tennurnar og lita á sér hárið, komu fréttir. Og unga stúlkan sem einu sinni hafði verið ungabarn ungu stúlkunnar að austan hoppaði hæð sína af kæti. Ekki einungis vegna þess að umræður virtust standa yfir um að fegurð heimsins myndi opinberast fyrir augum hennar eftir örfáa mánuði á landinu sem hún var fædd og uppalin á, heldur einnig og aðallega vegna þess að fegurð heimsins virtist ætla að opinberast á Borgarfirði eystri, æskustöðvum móður hennar.

laugardagur, apríl 01, 2006

Hvernig á að missa kúlið - 1. hluti

Farðu á Hressó, dansaðu við sveittan homma með skuplu. Þegar þú kemur heim og finnur kónguló í herberginu þínu farðu þá að grenja og vektu vini þína til þess að væla móðursýkislega í símann. Sofðu í stofunni í nótt.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com