<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Allt er á uppleið.

Ég missti alla trú á að hlutirnir myndu bjargast og ég fengi íbúðina, hefði efni á henni og gæti yfirleitt lifað í kaupmannahöfn annar staðar en í pappakassa á lestarstöð úti á landi. En svo snérist gæfan mér í hag. Og nú er ég bjartsýn. Ef allt gengur eftir ættum við að geta flutt í íbúðina okkar í Frederiksberg í vikunni.

Ég er ekki aðeins búin að öðlast nýja og bjartari lífssýn heldur er ég líka komin í tímabundna vinnu. Cecilie, vinkona mín úr Borups, kippti í nokkra spotta, talaði við stjúppabba sinn og reddaði mér mötuneytisvinnu í prentsmiðju í tvær vikur. Við mætum báðar klukkan níu, skerum niður grænmeti og leverpostej og flæskesteg og smørrebrød og rødkål og allt það. Síðan koma allir í prentsmiðjunni og fá sér að borða og segja tak for maden og við segjum det var så lidt og brosum og setjum í uppþvottavélina og syngjum. Ákaflega heillandi ferli allt saman. Og launin eru framúrskarandi góð. Það er gott að vera dóttir yfirmannsins og vinkona hennar.

Annars er bara þröngt á þingi í íbúð þeirra maísólar og sigríðar og spúnar guðný hrafnkelsdóttir mig nú á hverju kvöldi á dýnunni góðu. Það er ánægjulegt.

Óskalisti dagsins:
1. Peningar
2. Vinna
3. Annar kaffibolli

Og já, ef þið eigið miða á Arcade Fire í Kaupmannahöfn hafið þá samband. Ég skal kaupa þá. Og það er bannað að kommenta og segja "haha. ég á miða á arcade fire. nananananana."

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Nú er ég komin til Köben og er það vel. Þremenningasambandið sameinaðist aftur eftir kjánalega litla fjarveru með gleði og kúri. Þrátt fyrir að mér hafi í upphafi verið ætluð stærsta dýna mannkynssögunnar í íbúðinni þeirra maísólar og sigríðar höfum við látið fara vel um okkur síðustu daga og nætur í hjónarúminu og sofið í þrefaldri skeið. Eða ljúffengri samloku. Hvað sem ruggar bátnum ykkar. Við erum búnar að endurupplifa gæðastundir fyrir framan ameríska raunveruleikaþætti, grátandi, hlæjandi, kúrandi, talandi. Við erum búnar að endurupplifa gæðastundir í eldhúsinu, þær að elda, ég að sitja og drekka bjór. Við erum búnar að endurupplifa öll trúnóin, brandarana og fíflalætin. Það er gott. (nóta til sjálfrar mín: muna að blogga á undan ragnheiði við tækifæri. það væri gaman að vera fyrst með allar tilgangslausu fréttirnar til tilbreytingar)

En að sjálfsögðu er danmörk eins og lífið; ekki bara dans á rósum. Ég fór í vinnuna mína og komst að því að ég var búin að missa hana og það var búið að ráða einhverja ljóshærða danska druslu í staðin fyrir mig. Svo ég þarf að finna aðra vinnu. Ég er búin að skrifa það á ToDo listann minn og er að plana að ganga í málið á morgun.

En á léttari og jákvæðari nótum er ég komin með íbúð. Íbúð en engin vinna. Það er slæmt reikningsdæmi með ennþá verri útkomu. Gott fyrir geðheilsu mína að ég hef aldrei verið neitt sérstaklega góð í stærðfræði. Íbúðin er í Frederiksberg (jess!) og er sæt með engri stofu, tveimur svefnherbergjum, mjóu eldhúsi og litlu baðherbergi. Ég mun deila henni með Guðnýju, hér eftir Clooney, vinkonu minni til fjöldamargra ára og sálufélaga.

Um helgina fór ég í partý og hitti krakkana úr Borups. Það var gaman þangað til ég var böstuð af metroverði á leiðinni heim. Samtalið var einhvern vegin svona:

Metrovörður: Hej, har I en billet?!
Katrín: Ha?
Metrovörður: Har du en billet?
Katrín: Eehhhh...æ dónt önderstend dansk..danish..
Metrovörður: Do you have a ticket?
Katrín: Hmmm. Tikkett? Ragnheiður? Hvað eigum við að gera?
Metrovörður: Yes. You need a ticket if you are going to use the metro.
Katrín: Eh. jess jess jess. æ nó. (sýni honum eldgamlan miða) hír jú arr.
Metrovörður: This ticket expired long time ago. See.
Katrín: Nó nó nó. æ was in trein. end ðen. æ gó át of trein. æ bæ tikket. jú nó. æ bæ tikket efter æ ræd in trein. jes?
Metrovörður: No, you have to buy a ticket before you ride the train.
Katrín: Nó nó nó!! Æ bæ tikket efter æ is in trein. ná æ bæ tikket.
Metrovörður: Nó. You have to pay a fine because you don't have a valid ticket. (byrjar að skrifa sekt á mig og ragnheiði) Whats your name?
Katrín: Ehhh. mæ neim? læk...vott æ is colld?
Metrovörður: Yes.
Katrín: Ó! ókei! mæ neim is...katrín...guðjónsdóttir.
Metrovörður: Okay. And your adress please.
Katrín: Hvað á ég að segja ragnheiður?
Ragnheiður: Well. Ví djöst arrævd in Cópenheigen end ví liv in a hostel.
Metrovörður: (langar að drepa okkur) Okey. Just tell me the address of the hostel you are staying in.
Ragnheiður: Well...ví dónt...nó ðí adress. Djöst ðe neim.
Metrovörður: (langar að deyja sjálfur) Okay, just write the name of the hostel then.
Ragnheiður: (skrifar eitthvað bullnafn á einhverju bullhosteli)
Katrín: (skrifar líka eitthvað bullnafn á einhverju bullhosteli sem ragnheiður fann upp)

og ég nenni ekki að skrifa meira því þetta er leiðinleg saga. Allavega sluppum við naumlega úr klóm illa metrovarðarins.

Núna er ég búin að sitja á einhverju kaffihúsi með ókeypis interneti í alltof langan tíma. Mér er illt í rassinum, búin að missa af mat hjá Þremmaranum og alveg búin að klúðra fótósjopp kvöldinu hennar maísólar. Djöfullinn.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ég fer aftur til Kaupmannahafnar á morgun. Nú er klukkan, bíddu.

katrín says: (6:59:05 AM)
hvað er klukkan?
matt mogue says: (6:59:32 AM)
5:59

Sum sé, klukkan er 5.59 og klukkan á tölvunni minni er ennþá á danmerkurtíma. Það er ágætt.

Ég ætlaði ekkert að blogga en síðan las ég bloggið hennar Ragnheiðar og ég hló upphátt og fékk fiðrildi í magann og hlakkaði óstjórnlega mikið til að koma til Köben og syngja og vera glöð með Þremenningasambandinu aftur. Og ef blogg getur komið svona hamingju í heiminn þá má ég ekki láta mitt eftir liggja. Svo hér kemur smá gleði handa ykkur. Eða allavega blogg.

Nú er árið 2007. Sem hlýtur að þýða að árið 2006 er búið. Það var fyrirmyndarár. Nei, meira en fyrirmyndarár. Það var algjörlega stórfenglegt, undursamlegt, framandi og fullkomið. Þetta ár var gæðaár. Besta ár í manna minnum. Mínum minnum allavega. Ég ætla að prófa að skrifa eitthvað um það. Ég get þá alltaf strokað það út ef það verður leiðinlegt. Tæknin, þið skiljið.

Fyrstu mánuðir ársins voru verstir, það verður að segjast. Ég kláraði MH á síðasta gleðisnúning og var glöð aftur. Mér tókst hið tilgangslausa; að útskrifast af bæði félags- og málabraut. Beilaði á útskriftinni og fór til Ítalíu með fjölskyldunni minni. Skoðuðum Róm, fórum í lest, vorum hrædd í Napolí, vorum lengi í Napolí, fórum út Napolí, bjuggum í fjöllunum, löbbuðum á ströndina, lásum, borðuðum, snérum til baka til Rómar, fórum heim. Plússtig fyrir mömmu og pabba. Mínusstig fyrir mig að eiga ekki stúdentshúfu.

Miðbik ársins innihélt afmælið mitt og sumarið. Ég hélt risastóra stúdents- og afmælisveislu. Clint Eastwood and the Kicks spiluðu eftirminnilega fyrir dansi og allir voru glaðir. Það var næs. Ég fór að vinna á bæði Segafredo og Rósenberg, bjó í Hlíðunum, yfirgaf fjölskyldu mína og vann eins og geðsjúklingur. Man eftir nokkrum dögum þar sem ég hélt ég myndi deyja. Fór austur á Borgarfjörð og sá Belle and Sebastian í gömlu bræðslunni. Plússtig fyrir Rósenberg, Sigríði Eir og Bella fyrir að fara í fótbolta með fótboltaliði UMFB. Mínusstig fyrir Segafredo fyrir að vera ómannlegur vinnustaður og öllum sem halda að það sé auðvelt að vakna klukkan hálf sjö á morgnana. Já, og líka plússtig fyrir vont veður í sumar og þar af leiðandi marga daga af dansi og fíflagangi á Segafredo.

Seinni helmingur ársins fær verðlaunin: Besti 1/3 hluti ársins 2006. Ég flutti til Kaupmannahafnar í ágúst. Bjó með tveimur bestu manneskjum sem þessi heimur hefur alið af sér. Eignaðist fullt af nýjum vinum. Drakk mikið af bjór. Fékk skemmtilega vinnu. Fór í geðveikan skóla. Var glöð og hamingjusöm og brosandi næstum því alltaf. Plússtig fara til Danmerkur fyrir að vera gott land, dönsku og norsku vina minna fyrir að skilja mig, Ingu fyrir að slá heimsmet í heimsóknum, KB banka fyrir að lána mér peninga, hjólsins hennar Dúnu, allra í Trúðaskólanum (sérstaklega besta kombó ársins; svartur hommi, latínó hommi og dvergur), kærastan hans Jóns Kristjáns, Stengade 30, Sigríði og Ragnheiði fyrir að passa mig, hafa vit fyrir mér, hjálpa mér og Þremenningasambandsins fyrir að skemmta mér. Einnig er sérstakur bónusvinningur handa annars vegar Stevnsgade 39 og þeim sem þar búa og hins vegar karlkynsþremenningasambandinu sem sá fyrir skemmtun helgina umræddu. Aukaverðlaunin fá allir vinir mínir á Íslandi fyrir að vera skemmtilegir á Íslandi. Mínusstig fá metroverðir og KB banki fyrir að lána mér peninga.

Blaðið var að detta innum lúguna, klukkan er að verða sjö og ég er ekki þreytt. Ég þarf að vakna eftir einn og hálfan tíma en fyrst:

Áramótaheit fyrir árið 2007:
1. Lesa HTML 4 og vera klár í að kóða.
2. Borga upp yfirdráttinn minn.
3. Fara til Amsterdam, Berlínar, New York, Parísar eða Kúbu og passa að Þóra verði ekki drepin.

Nú ætla ég að sofa.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com