<$BlogRSDURL$>

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Ég er komin til Kaupmannahafnar og í dag var fyrsti skóladagurinn. Það var danskur maður sem hélt ofsalega fyndna og skemmtilega ræðu og allir hlógu mikið. Það hefði verið gaman að skilja hvað var svona skemmtilegt.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Í dag er dagurinn. 16. ágúst. Dagurinn sem ég ætti að vera að flytja til útlanda. Hamingjudagur.

Í staðin fyrir að klára að pakka, knúsa mömmu og pabba, ráfa um flugstöðina eða kveðja kisuna mína ligg ég í rúminu mínu með hálffulla ferðatösku á gólfinu og heng í tölvunni. Og hér kemur sagan.

Um daginn fór ég í endajaxlatöku. Það var slæmur dagur. Líkami minn brást mér á öllum sviðum og ég varð veik, tók hormónageðveikisköst og hristist og skalf. Aðgerðin gekk þó ágætlega og allt virtist ætla að ganga eins og í sögu. Daginn eftir aðgerðina vaknaði ég hins vegar með risastóra bólgu öðru megin á andlitinu. Og þessi bólga var ekki svona "æ þú ert eins og hamstur eða formúlu 1 hetja". Nei, hún byrjaði undir vinstra auganu og endaði á hálsinum og hún var riiiiisastór. Ég kippti mér þó ekkert upp við þetta, hengdi bara handklæði yfir speglana í húsinu og borðaði stappaðan mat og íbúfen. En dagarnir liðu og bólgan óx eins og ormur á gulli. Þegar vinstri hluti andlits míns var orðin eins og haus útaf fyrir sig fór ég til læknis og hann sagði: "guð minn góður" og gaf mér pensilín. Síðan fór ég til tannlæknisins míns og hann sagði "guð minn góður" með tárin í augunum.

Ég þurfti þess vegna að fresta fluginu mínu og er búin að liggja í volæði og köldum bökstrum heima hjá mér. Ég er ekki búin að hitta fólk, annað en móður mína, í næstum tvær vikur og bólgan er leeeeeeengi að hjaðna. Ég hata nú lífið mitt opinberlega og langar að deyja.

Í staðin fyrir daginn í dag flýg ég út á laugardaginn. Laugardagurinn verður því hamingjudagur. Mér finnst, í ljósi þess hversu lengi ég hef hunsað bloggið mitt, að ég ætti að segja aðeins frá því hvað allt er gott og fallegt í Kaupmannahöfn.

Í fyrsta lagi eru meðleigjendur mínir fyrsta flokks. Ég kynni til leiks SIGRÍÐI EIR ZOPHANÍASARDÓTTUR (ég mun aldrei læra að skrifa þetta nafn rétt). Sigríður hefur gaman að því að leika, segja brandaragrín og syngja í bíl. Henni finnst gott að sofa um miðjan daginn og fara á hestbak. Sigríður hefur gaman að löngum gönguferðum meðfram strandlengjunni, lestri góðra bóka og sér fyrir sér að í framtíðinni muni hún fjárfesta í einbýlishúsi í Garðabæ með eiginmanni og þremur börnum.
Næst kynni ég til leiks RAGNHEIÐI STURLUDÓTTUR, framakona og fullorðingur. Ragnheiður hefur yndi af skrýrslugerð ýmis konar og slæmri, íslenskri tónlist. Henni finnst skemmtilegt að borða gulrætur og eiga skó. Framtíðardraumar Ragnheiðar eru að kynnast einlægum tónlistarmanni og stofna stóra fjölskyldu. Hún vill búa í sveitinni, rækta grænmeti og reka kindur. Ragnheiður er náttúrubarn.

Í öðru lagi er íbúðin okkar draumur. Ég ætla að sýna ykkur mynd af eldhúsinu:


Hér kem ég til með að elda eitthvað exótískt.

Í þriðja lagi er skólinn minn ógeðslega töff. Ég veit reyndar ekkert um það en ég vona það og trúi því.

Í fjórða lagi hitti ég þessa gaura.

Og í fimmta lagi verður allt ógeðslega töff og skemmtilegt.

Ég ætla að fara að gera eitthvað. Það verður gaman.

Kveðja,
fílamaðurinn.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Hæ.

Ég er í sveitinni hjá ömmu og afa. Búin að borða óskaplega mikið af kleinum, veiddi marhnút á bryggjunni í gær og fór á Belle and Sebastian í gömlu bræðslunni um helgina. Allt er gott.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com