<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Uppgötvun á heimsmælikvarða?

Hvernig stendur á því að Nonni á Nonnabita er ofsalega mjór og sætur en Eiki á Salatbar Eika er rosalega feitur?

föstudagur, janúar 20, 2006

Saga hamfara minna innan áfangakerfis Menntaskólans við Hamrahlíð:

Dagurinn hafði verið ósköp venjulegur skóladagur, ljósin höfðu verið hafð slökkt í Norðurkjallara langt fram eftir degi, fólk sofandi undir yfirhöfnum hvert ofan á öðru, ógeðsleg teknótónlist í lélegu græjunum uppi á sviði og ég, mitt í öllu þessu, að fagna komandi útskrift innra með mér. Tilhugsunin hlýjaði kalda hjartanu mínu og ég ákvað, í tilefni að þessum dásamlega degi, að kíkja upp á skrifstofu og tilkynna útskrift af mála- og félagsfræðibraut.

Þegar ég kom inn á skrifstofu áfangastjórans vinalega, Kristínar, tók hún vel á móti mér, bauð mér sæti og hófst handa við að telja einingarnar mínar saman. Það var heldur mikið verk og eftir dágóðan tíma dróg hún skúringarfötu undan borðinu sínu. Hún veiddi upp úr henni rennandiblauta gólftusku, vatt hana lauslega og grýtti henni síðan að öllu afli framan í mig. Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og þegar ég hafði náð andanum aftur sagði hún: "Heyrðuru ekki hvað ég sagði? Það vantar sex einingar upp á að þú náir að útskrifast af tveimur brautum!"

Ég útskýrði fyrir henni með erfiðleikum að það gæti einfaldlega ekki verið, ég hefði farið í gegnum þetta með námsráðgjafa seint á síðasta ári og hún hafði fullvissað mig að allt væri í lagi og súperútskriftin mín yrði samkvæmt áætlun. Ég hafði ekki lagt það í vana minn að véfengja námsráðgjafa skólans og ætlaði ekki að byrja á því núna, þegar svona stutt var í endalok skólagöngu minnar. Hinn vinalegi áfangastjóri tók því að telja einingarnar mínar aftur saman með yfirstrikunarpennunum af öllum stærðum, gerðum og litum. Eftir nokkra stund bað hún mig að afsaka sig, teygði sig yfir borðið og tók tuskuna sem lá í kjöltunni á mér, dýfði henni fimlega ofan í skúringarvatnið og slengdi henni aftur framan í mig: "Tjah, ég sé ekki betur en að það vanti hér sex einingar upp á í kjörsviði félagsfræðibrautar."

Tárin fóru að renna viðstöðulaust niður kinnar mínar. Ég bölvaði námsráðgjafshýenunni sem hafði platað mig til að trúa svikum hennar og prettum. Ég bölvaði sjálfri mér fyrir að hundskast ekki til þess að læra á kerfið sem ég hafði lifað og hrærst í, í næstum fjögur ár. Ég bölvaði almættinu og ég bölvaði flámæli.


En að öllu gamni slepptu þá hata ég lífið og sé fram á að taka þessar 6 einingar í viðbót við þessar milljón sem ég er með nú þegar. Ég er að hugsa um að hætta í báðum vinnunum mínum og henda tölvunni minni í gólfið. Og eyða blogginu mínu. Og hætta að drekka. Og skjóta köttinn minn. Og skila DVD myndinni sem ég var að kaupa í gær. Allt til þess að halda stoltinu og heyra rektor segja: "Katrín Björgvinsdóttir, af mála- og félagsfræðibraut."

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Nú er klukkan fjórar mínútur í átta.

Ég elska;
1. Snjóinn.
2. Kisuna mína.
3. AB mjólk.
4. Ítölsku.
5. Náttbuxur.
6. Kings of Convenience.
7. Stígvél.

föstudagur, janúar 13, 2006

Síðasta neikvæða færslan:

Ímyndið ykkur hið fullkomna föstudagskvöld. Ímyndið ykkur svo algjöra andstæðu þess. Og það er ég að fara að gera í kvöld!

Það er "sleepover" í Lækjarskóla (þar sem ég vinn). Ég verð sum sé lokuð inni í grunnskóla með hundraðogfimmtíu grunnskólabörnum með allar sínar hormónaflækjur og samskiptaörðugleika og mun ekki geta sofið í alla nótt. Og ég er að detta út af núna.

Þá er þessi röð neikvæðra blogga lokið og við tekur endalaus hamingja og ást.

Ég sá Túskildingsóperuna í gær. Ég var mjög hrifin ólíkt eiginlega öllum öðrum sem ég talaði við. Það er mjög sjaldgæft að ég sé eina jákvæða manneskjan í hópnum, sérstaklega eftir leikrit. En þessi óvenjulega frásögn er kannski bara tilvalin til þess að marka þessi merku tímamót í lífi mínu.

Bless kex.

PS. Ég vil að Jón Kristján komi heim til Íslands. Og Erla. Og allir hinir sem eru einhvers staðar að njóta lífsins. Æ, ég gleymdi að vera jákvæð. En það telst ekki með því þetta er PS.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Siðlaus snepill


þriðjudagur, janúar 10, 2006

Jónas bloggar.

mánudagur, janúar 09, 2006

Færslan um hversu mikið ég hata Kaffibarinn.

Ég hata Kaffibarinn. Ég hata að þurfa að standa í röð í þrjú kortér og horfa á fólk í bleikum glimmer leggings og með tattú framan í sér ryðjast fram fyrir röðina og sleikja dyraverðina upp með línum eins og "ég skal gera gjörning um þig" eða "þú mátt passa indíánabarnið mitt". Ég hata að þegar maður er búinn að bíða hálft kvöldið eftir að komast inn á þennan stað kemst maður loksins inn og það fyrsta sem maður hugsar er að komast aftur út í troðninginn í röðinni. Ég hata að maður þurfi að berjast fyrir lífi sínu á leiðinni á barinn, bíða í hálftíma eftir afgreiðslu og þegar maður fær loksins bjórinn sinn þá þarf maður að komast til baka frá barnum í gegnum þvögu af fullu og heimsku fólki. Ég hata hvernig enginn virðist gera sér grein fyrir því að það hellist úr fullum glösum og þá gjarnan á neikvætt og leiðinlegt fólk eins og sjálfa mig. Og ég hata líka hvernig fólk gerir sér engan vegin grein fyrir því að það að halda á sígarettu er eiginlega það sama og að halda á brennandi kyndli. Og ef maður heldur á brenndandi kyndli þá er maður ekki að ota honum í mann og annan á skemmtistöðum bæjarins. Ég hata tónlistina, ég hata troðninginn, ég hata allt falska og ljóta fólkið og ég hata fólk sem hefur samfarir á klósettum á skemmtistöðum. Ég hata fólk sem bankar á klósetthurðir þegar maður er að pissa. Ég hata að ég skuli ennþá fara á Kaffibarinn þó að hann sé helvíti á jörðu fyrir mér.

En það var samt gaman hjá mér í gær og ég elska fólkið sem ég hitti og eru vinir mínir.



Eitt annað. Ég held að Nói Albínó sé besta kvikmynd sem hefur gerð. En ég er líka mjög yfirlýsingaglöð núna.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Færslan um það hversu mikið ég hata að versla.

Ég hata að versla. Mér dettur ekkert annað í hug sem ég hata meira en að versla föt á Íslandi (og alls staðar annars staðar í heiminum ef því er að skipta). Ég hata pínkulitlu mátunarklefana sem ég treð mér inn í og klæði mig úr fötunum fyrir framan endalausa spegla og undir ógeðslegu flúrljósi. Ég hata hvernig tjaldið á mátunarklefanum er alltaf aðeins of lítið til þess að ná alla leið og skilur þess vegna eftir kíkjugat fyrir alla þá sem labba framhjá.
Ég hata fólkið sem verslar, alla undirgefnu eiginmennina og allar mjóu, pallíettustelpurnar. Ég hata líka allar 13 ára stelpuhópana sem klæða sig eins og eineggja fimmburar. Ég hata gamla fólkið, ég hata miðaldra fólkið, ég hata einstæðu mæðurnar með börnin sín grenjandi í Hagkaupskerrum. Ég hata tónlistina, annað hvort ógeðslega hátt stillt popp tónlist eða lyftutónlist sem fær manni til að líða eins og á geðsjúkraspítala.
Ég hata hvernig ég verð geðvondari og geðvondari með hverjum verðmiða sem ég skoða og enda á að snappa á einhverri afgreiðslustúlku. Ég hata þegar ég er orðin svo reið að ég fæ mér ís og finnst ég vera 10 kílóum feitari eftir á. Ég hata hvernig ég fæ samviskubit þegar ég geng ekki frá fötunum sem ég máta. Ég hata þegar afgreiðslufólkið spyr mig hvernig "þetta passi" og ég öskra "áttu þetta í svona 8 númerum stærra?".

Ég hata sum sé að versla föt.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Efst á baugi: Árið 2006

Jæja, þá er þetta ár búið og hér kemur fyrsta færsla ársins 2006. Það er víst venja að tala eitthvað um árið sem er að líða, telja upp allt sem maður elskaði, allt sem maður hataði og allt sem maður lærði:

Árið 2005 var ágætt. Eftir gríðarlega miklar vangaveltur um árið dettur mér bara eitt í hug til þess að tilnefna:

Manneskja ársins:
Inga



Kannski er ég hugmyndalaus, kannski er þetta ást. Hver veit?

Annars sé ég fram á gott ár. Það hljómar bara svo vel, Katrín 2006. Loksins mun ég klára MH og snúa mér að einhverju öðru. Hvað það verður veit þó enginn. Nema ég, innst inni. Í ljósi þess hversu manísk ég er í sambandi við öll háleit markmið og loforðum um bót og betrun eru áramótin auðvitað merkilegur hluti í lífi mínu. Áramótaheit ársins voru fá en góð og ég hef fulla trú á að Katrín 2006 slái allar hinar árgerðirnar út.

En á morgun byrjar skólinn og við tekur síðasta önnin mín í MH. Allt sem ég geri á morgun mun ég aldrei endurtaka aftur (7, 9, 13). Morgundagurinn verður síðasti fyrsti emmháíski skóladagurinn minn að eilífu. Og ég get ekki beðið.
Ég veit samt ekki alveg hvernig ég á að fara að því að A) sofna í kvöld og B) vakna í fyrramálið, þar sem sólahringurinn minn er komin alveg á hvolf. Ég vildi að ég ætti svefnpillur.

Að lokum vil ég endilega benda ykkur á ungan og upprennandi listamann, Steinar Þorsteinsson. Áhugasömum má benda á að kauði er einmitt sonur Þorsteins Þórhallssonar, sögu- og landafræðikennara í MH.

Hér má finna hans verk.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com