<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Ég er sest aftur fyrir framan tölvuna góðu í Loftkastalanum eftir æsispennandi heimsreisu mína um Þýskaland og Frakkland. Í tilefni af því hef ég ákveðið að brjóta odd af oflæti mínu og blogga aðeins um ferðina í eðlilegra formi en tilgerðarlegu atómljóði eða samhengislausum og óskiljanlegum texta. Frásögninni verður skipt í tvo hluta; Þýskaland og Frakkland.

Þýskaland:
Hópurinn sem hélt til Frankfurt samanstóð af einstaklingum með mismunandi bakgrunna og lífsviðhorf. Þetta voru: Jónas Margeir, Vilhjálmur Hilmar, Jón Helgi, Regína Ösp, Guðrún Stella og Dóra Björt. Við flugum út þriðjudaginn 19. júlí. Eins og áður sagði sló ég öll met í kjánaskap og það byrjaði með því að ég svaf yfir mig morguninn sem við áttum að fljúga. Sem betur fer var faðir minn mér til halds og trausts og skutlaði mér út á flugvöll okkur báðum til mikillar hamingju (mér því þá náði ég flugvélinni og honum því hann fékk tækifæri til að leggja mér lífsreglurnar í hinsta sinn). Að sjálfsögðu var ég skotspónn mikilla brandara þegar ég sameinaðist loks hópnum í Keflavík og loks þegar leið á morguninn og skotin hættu að fljúga heyrðist í hátalarakerfinu: "Katrín Björgvinsdóttir. Þú ert vinsamlegast beðin um að hafa samband við upplýsingar." Ferðafélagar mínir áttu ekki orð. Þá kom í ljós að ég hafði gleymt passanum mínum við tollinn. Þegar við komum til Frankfurt hittum við Hauk. Um kvöldið fórum við á Sigur Rósar tónleika. Það var magnað. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því. Eftir tónleikana vorum við bara að hanga með Sigur Rós og borða lífrænt ræktuð fræ og drekka kampavín og viskí. Það var allt frekar artí bara.
Frankfurt var ofsalega skemmtileg. Það var kannski ekki mikið að sjá og skoða en hópurinn var skemmtilegur og Þjóðverjar eru líka yndislegt fólk.

Frakkland:
Parísarförin byrjaði á laugardagsmorgni. Kvöldið áður hafði verið aðeins of skemmtilegt og við Dóra byrjuðum á því að sofa yfir okkur og missa af lestinni til Parísar. Einhvern vegin náðum við að tala lestarkonuna til og leyfa okkur að breyta miðanum og við lögðum því á stað til Parísar örlítið seinna en áætlað var. Ferðin frá Frankfurt til Parísar tók 6 tíma. Þegar við komum til Parísar fórum við á hótelið okkar sem var í einhverju ógeðslegu verslunarmiðstöðvarúthverfi í París. Það var blátt og gult og teppalagt. Sem betur fer var þetta aðeins til bráðabrigða því næsta dag fórum við og tékkuðum okkur inn á Youth Hostelinu okkar. Þar var bara svona skítugt og fátækt ungt fólk sem var að ferðast í kringum heiminn með bakpoka. Ógurlega kósý.
Saga 1 úr París: Eiffelturninn.
Við Dóra skoðuðum allt sem maður á að skoða í París. Við byrjuðum á Eiffelturninum en þegar við komum upp úr metroinu sáum við engan Eiffelturn og spurðum einhvern mann: "Excuse me. Can you tell us where the Eiffel Tower is?" og hann horfði á okkur eins og við værum þroskaheftar og benti síðan hneykslaður í einhverja átt. Ég var bara: "Ó fokk. Við erum pottþétt ennþá í Þýskalandi eða eitthvað" en gekk samt í áttina sem maðurinn benti í. Og voila. Eftir tvö skref blasti hann við okkur. Í ljósum logum. Það var kviknað í Eiffelturninum! Djók. Það voru bara svona ljós á honum þið vitið.
Saga 2 úr París: Louvre.
Við Dóra vorum búnar að vera virkilega spenntar fyrir því að skoða Louvre (sem er safn). Síðasta daginn mættum við galvaskar á staðinn en þá var allt bara lok lok og lás og allt í stáli. Þá var bara lokað á öllum þriðjudögum. Bömmer.
Saga 3: Karlmenn.
Við Dóra komumst að því að það er bara eitt að París. Karlmenn. Karlmennirnir í París eru það ógeðslegasta sem ég hef komist í kynni við. Við erum að tala um að þeir slá út hrossaflugur. Það er ekki hægt að labba í París nema að hver einasti karlmaður og strákur og ungabarn og gamalmenni líti við og flauti eða segi Bonsjúr eða eitthvað annað á frönsku. Fyrst var það bara dáldið fyndið en eftir einn dag var það orðið svo pirrandi að þegar ég sá karlmann labba eftir götu fór ég að kvíða fyrir að mæta honum og langaði að beyja inn aðra götu. Þeir eru plága. Ég geri mér grein fyrir því að langanir og losti og ást og hrifning á milli karls og konu (og að sjálfsögðu karls og karls og konu og konu ef út í það er farið) er fullkomnlega eðlileg og jafnvel dásamleg en þetta var viðbjóðslegt. En að mæta þeim úti á götu kemst ekki nálægt því að tala við þá. Þeir eru svo ágengir og frekir og örvæntingarfullir að það er eiginlega bara mjög ógeðslegt.
Niðurstaða: Frakkland væri gott land og París dásamleg ef að allir karlmenn væru geldir.

Þetta var nú skemmtilegt. Ég er nokkuð viss um að þetta sé svona frekar samhengislaust en það er allt í lagi. Eftir klukkutíma fer ég austur á land að heimsækja fósturjörð mína og afa minn og ömmu. Það verður gaman. Slær að minnsta kosti út gamla planið; að horfa á DVD og verða ógeðslega full og deyja í baðkarinu.

Bæ!

laugardagur, júlí 23, 2005

Eg er i Frankfurt.

Tad er gaman. Eg er buin ad sla oll min met i ad kludra og vera vitlaus. Eg missti af lestinni til Parisar, tyndi passanum minum, svaf yfir mig svona 16 sinnum og byrjadi ad taka heroin.

Eftir klukkutima gerum vid Dora adra tilraun til ad komast til Frakklands. Eg get ekki bedid. Tad verdur areidanlega gedveikt.

mánudagur, júlí 18, 2005

Bæ.

Hér kemur neikvæða færslan:

Ég hata lífið. Ég hata vinnuna mína. Ég hata InkLink og ég hata fólkið sem teikar aldrei heldur skrifar bara orðin til að fá fleiri stig. Ég hata að vera með yfirdrátt og eiga eftir að lifa í skuldum við banka til æviloka og ég hata alla sem hringja í Loftkastalann og halda að þau séu að hringja í Hátækni því númerin eru svo ógeðslega lík. Ég hata að kunna ekki að spara peninga og eyða peningum í vitleysu eins og súkkulaði og ógeðslega dýra klippingu. Ég hata að missa af strætó og nöldra í sömu strætóbílstjórunum að leyfa mér að koma því ég gleymdi hvar ég lét veskið mitt frá mér síðast. Ég hata fólk sem borgar í gegnum síma og er með kortanúmer sem byrja ekki á 4539. Ég hata fólk sem segir gildistíman strax á eftir kortanúmerinu og þegar ég stimpla það inn og þarf að byrja upp á nýtt. Ég hata fólk sem er búið að ákveða hvar það ætlar að sitja þegar það hringir. Ég hata íslenskt samfélag sem fer aldrei í leikhús og drepur íslenska leikhúsmenningu. Ég hata öll ógeðslega illa stafsettu bloggin sem eru til og ég hata fólk sem veit ekki hvenær það á að vera ufselon. Ég hata að það hafi verið rigning þegar ég fór á Hróaskeldu en sól núna. Ég hata kók og allt sem er með sykri. Ég hata alla þjónustufulltrúana sem vinna í KB Banka við að tala við mann í gegnum netið og skilja aldrei brandarana mína. Ég hata að vera í ullarpeysu því mér klæjar svo mikið. Ég hata að vera alltaf í of stórum skóm og geta ekki hlaupið. Ég hata að bera út Fréttablaðið og ég hata þegar það koma aukablöð sem eru ógeðslega þung. Ég hata að MH-ingar skuli pissa á vini sína. Ég hata óþæginlega dótið sem ég fæ við hliðina á nöglunum. Ég hata fötin sem ég er í. Ég hata að eiga engar buxur og ég hata að finnast gaman að skoða Séð og Heyrt. Ég hata að taka strætó og ég hata að labba og anda og sitja og tala og skrifa og hata. En umfram allt hata ég að vera kona og það kona með verstu tímasetningar í heiminum.

föstudagur, júlí 15, 2005

Eftir nokkra daga fer ég til Frankfurt (finnst ykkur að maður ætti að segja FrankfurtAR? Hvað segir þú Erla?). Það er svo sem ekkert nýtt en eftir miklar bollaleggingar höfum við Dóra ákveðið að fara til Parísar í þessa fjóra daga sem við verðum lengur en áætlað var. Við tökum lest frá Frankfurt til Frakklands og gistum á einhverju ótrúlega kósí hosteli í París. Ég pissa í mig af spenningi!


Ég gæti þurft að taka svona með mér til Parísar.

föstudagur, júlí 08, 2005

Ég og Inga fórum í Americas Next Top Model leik um daginn og ég komst að því, öllum að óvörum, að föngulegur líkami minn hentar vel til fyrirsætustarfa.

Á morgun á mamma mín afmæli. Til hamingju mamma.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Langt síðan síðast. Eða svona. Þannig séð.

Loksins er það ákveðið. Ég ætla til Frankfurt. Gleði mín er óendanlega mikil. Ég flýg út þriðjudaginn 19. júlí og kem ekki heim fyrr en miðvikudaginn 27. júlí. Ég ætlaði aldrei að vera svona lengi, ferðin er eiginlega búin að hoppa á milli þess að vera einn sólarhringur, tveir dagar, fimm dagar og svo loks allir þessir átta dagar. Ástæðan er sú að áður áætlað flug fylltist áður en ég og Dóra gátum pantað miða. Eftir svona fjörtíu dramatískar ákvarðanir um að slá til og hætta við til skiptis ákváðum við að fara. Og nú er útprentunin mín komin í hendurnar á mér. Ég, Katrín Björgvinsdóttir (Kona) fer til Þýskalands og sé Sigur Rós spila í Frankfurt. Þetta verður svo geðveikt!

Það er bara eitt vandamál. Peningar. Ég hata þá jafn mikið og ég elska þá. Ég á eiginlega enga peninga, að hluta til vegna þess að ég kann jafn illa á peninga og pörun og að hluta til vegna þess að ég eyddi þeim öllum á tímabilinu sem ég var hætt við að fara. Þess vegna tók ég mig til og stofnaði til netkynna við þjónustufulltrúa hjá KB Banka að nafni Kolbrún:

17:12:12 Katrín: svo þú ert að segja að ef ég vildi taka 30.000 kr yfirdrátt þyrfi ég að borga svona 170 kr?!
17:12:46 Katrín: og um mánaðarmótin þyrfti ég að borga bankanum 30170 kr?
17:13:23 Kolbrún já, ég myndi halda að það yrði ekki mikið meira, nema að vextir hækki á tímabilinu, þetta er það sem ég fékk út

Það er skemmst frá því að segja að Kolbrún heillaði mig uppúr skónum með hugtakinu yfirdráttur. Og ég er á því að þetta dularfulla hugtak eigi eftir að bjarga mér (Konu) erlendis. (Ef þið lesið vandlega á milli línanna hér er þetta neyðarhjálp á einhvern sem er betur að sér í bankamálum en ég að draga mig uppúr kviksyndi illu bankanna).

Hmmm. Hvað er meira búið að gerast? Jú. Ég keypti mér hælaskó (!). Að labba á hælaskóm er eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Það er svo margt að huga að. Sérstaklega þegar ég er edrú. Þá þarf ég að einbeita mér að hverju einasta skrefi sem ég stíg en um leið að líta út fyrir að vera að hugsa um eitthvað sem hæfir konu á hælaskóm betur að hugsa um heldur en hælaskórnir sjálfir. Þegar ég lít í búðarglugga reyni ég að líta út fyrir að vera að skoða vörurnar en er í raun að fylgjast með fótunum á mér bólgna upp af öllu andlega álaginu sem fylgir hælaskóm. Já, erfiðleikar nútímakonunnar ætla engan endi að taka.

Ég kveð í bili en vona um leið að það líði ekki svona langt þangað til við sjáumst á ný. Því satt að segja var ég farin að sakna ykkar.

föstudagur, júlí 01, 2005

Ég ætlaði að blogga. Ég sver það. En hlustið bara á Nortón á meðan þið bíðið. Það er svo geðveikt hip og kúl.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com