<$BlogRSDURL$>

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Tvö atvik. Annað er fyndið, hitt ekki.

Atvik 1.

Í hléi í Loftkastalanum. Ég er að afgreiða einhverja stúlku sem mér finnst ég þekkja:

Katrín: Ertu ekki Bylgja?
Kona: Ha?
Katrín: Ertu ekki Bylgja?
Kona: Nei, ég er Birna.
Katrín: Ó.
Kona: Ert þú Agnes?
Katrín: Nei.
Kona: Ó.

Vandræðaleg þögn

Atvik 2.

Ég er heima að skrifa söguritgerð sem ég er búin að hafa svona hálft ár til að gera og átti að skila fyrir hálfum mánuði. Ég er ein heima því öll fjölskyldan mín er farin á Sigur Rósar tónleika og ísinn sem ég fékk mér í skaðabætur er ógeðslega vondur. Síminn hringir:

Jónas: Hæ. Heyrðu. Villi á einn aukamiða á Sigur Rós. Langar þig að koma?
Katrín: Ég...er að skrifa söguritgerð...ehh.
Jónas: Já, þú gerir það bara eftir tónleikana. Komdu.
Katrín: Nei....ég ætla að skrifa...söguritgerð. Ég verð.

Ömurleg þögn

Bætt inn kl. 23:53:

Ég sit ennþá að skrifa söguritgerð. Það gengur ekkert sérstaklega vel. Síminn hringir:

Katrín: Halló?
Jónas: Hæ. Ég á passa í eftirpartýið hjá Sigur Rós. Viltu koma?
Katrín: Di di di di di di di (þetta er hljóðið þegar ég hendi símanum í hausinn á mér og rotast. og það lekur blóð yfir ömurlega söguritgerð.)

Ærandi þögn

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Ég var að koma heim frá London. Ég fór með leiklistaráfanganum mínum, LEI233, til þess að kanna breskt leikhúslíf. Það var gaman.

Við sáum þrjár sýningar, misjafnlega skemmtilegar og misjafnlega vel tilfallnar áfanganum. Fyrsta sýningin sem við sáum var Ríkharður II eftir Sjeikarann með Kevin Spacey í aðalhlutverki. Ég sofnaði svona áttahundruð sinnum, fékk mjög vandræðalegt hláturskast og ímyndaði mér að ég væri með haglabyssu og væri að skjóta hvern leikarann á eftir öðrum úr sætinu mínu (ef áhugi er hjá lesendum til þess að leika þennan leik eftir einhvern tíman á lífsleiðinni þá virkar hann svona:

1. Settu hægri hendina fyrir neðan hægra augað og lokaðu því vinstra.
2. Láttu litla fingurinn standa beint út í loftið og ímyndaðu þér að hann sé byssa.
3. Einbeittu þér að fingurbroddinum/byssuhlaupinu og miðaðu því á hlut/manneskju sem þú vilt skjóta.
4. Framkallaðu virkilega lágt (því þú gætir verið stödd/staddur í frægasta leikhúsi Bretlands) byssuhljóð (ef þú ert stelpa þá einhvers konar afskræmda mynd af byssuhljóði (því að stelpur geta ekki með nokkru móti gert byssuhljóð)) og láttu fingurinn/byssuna hreyfast örlítið um leið.)

Bíddu. Hvað var ég að tala um? Jú. Ríkharð II. Kevin var samt mjög góður en þetta greip mig ekki.

Næst fórum við á leikrit sem hét The Coran Boy og var barnaleikrit sem fjallaði um vöggumorðingja. Það var ótrúlega falleg og gott leikrit og þá sérstaklega ein sena sem var svona under-water sena. Þá féll svona plastdúkur niður fyrir framan sviðið og leikararnir héngu í loftinu eins og þeir væru að synda. Djöfull var það ógeðslega töff.

Síðasta "leikritið" sem við sáum var ekki leikrit (eins og gæsalappirnar gáfu mjög sterklega til skila). Þetta var svona STOMP-hópur sem kallaði sig Blue Man Group og þeir voru með mjög skemmtilega sýningu. Þeir voru bláir.

Hmmm. Hvað gerðist meira? Við gistum á ótrúlega skemmtilegu hosteli í London sem var ótrúlega subbulegt og ódýrt (ég mæli með því fyrir ungt fólk með lágar hreinlætis- og svefnaðstöðukröfur. það heitir Millenium Lodge). Við vorum rosalega fyndin. Alltaf. (Aðallega ég samt). Við sáum John Cusack og hann vill vera kærastinn minn (Djók). Við fórum oft ókeypis út að borða. Við urðum veðurteppt í London og keyrðum í heila nótt í leit að flugvelli sem flugvélin gæti lent á. Við gistum á Hilton eftir að það var orðið ljóst að við kæmumst ekki í loftið um nóttina (ótrúlega fyndið samtal sem ég átti við einhverja konu á leiðinni niður í lyftunni:
Kona: Jæja. Hvernig finnst þér svo hótelið?
Ég: (nýkomin af skítuga hostelinu okkar með rúmum sem hrundu í sundur og köldu vatni í sturtunum) Mér finnst þetta bara frábært! En þér?
Kona: Æ mér finnst þetta nú dálítið svona sjúskað.
Ég: ...)

Ég klúðraði náttúrulega algjörlega öllum verslunarferðum og keypti mér fjögur pör af skóm og ógeðslega mikið af DVD. Ef einhver vill vita hvaða DVD þá má sá hinn sami spyrja. Mér finnst svo montið (?) að telja það allt upp hér (en það eru sko ýkt góðar myndir).

Góðar fréttir:
Sylvía Nótt var valin sjónvarpsmaður ársins.

Vondar fréttir:
Ég veit ekki hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.

Ókei. Bæ.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Ég kann ekki að einbeita mér. Ég er fullkomlega, algjörlega, gjörsamlega ófær um að einbeita mér að nokkrum sköpuðum hlut. Ég er svo slæm að ég get ekki einu sinni einbeitt mér að því að hætta að blogga í tvo daga.

Þessi fæðingargalli hefur óneitanlega neikvæð áhrif á skólagöngu mína. Nú er ég búin að sitja heima hjá mér alla helgina og gera hvað eftir annað tilraunir til þess að einbeita mér að því einfalda verkefni að skrifa söguritgerð. En ég bara get það ekki.

Oh. Ég hefði átt að fara í MR.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Ég gerði heiðarlega tilraun til þess að eyða þessu bloggi áðan en ég gat það ekki. Það er eiginlega jafn sorglegt og að gera misheppnaða tilraun til þess að fremja sjálfsmorð...

www.kapteinn.blogspot.com er að ganga í gengum meiri háttar krísutímabil. Við skulum öll vona að það gangi fljótt yfir.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Vá. Langt síðan síðast. Er bloggið mitt dautt?

Ég held ég sé bara of athyglissjúk til þess að hætta.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com