<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, desember 13, 2007

Gáta dagsins:



Hver á höndina?

þriðjudagur, desember 11, 2007

Ég hef ákveðið, eftir margra ára umhugsunartíma og bæði strjált og leiðinlegt blogg að snúa aftur. Ég ætla að endurvekja Kapteinn Katrín veldið og endurheimta heimsfrægð mína á þeim grundvelli. Ég er orðin leið á að vera nóboddí.

Þetta voru glæstir tímar. Tímar þar sem alþjóð vissi allt um mínar innstu tilfinningar og þrár, framandi menn ávörpuðu mig á börum borgarinnar sem Kapteininn og spurðu mig með suðrænum hreim hvernig mér litist á að verða hin nýja Beta Rokk, ritarar bókaforlaga hringdu í tíma og ótíma og báru undir mig fjárhagsáætlanir og uppköst af útgáfusamningum, tímar þar sem lífið var einhvern vegin bjartara og allir vegir voru færir.

Svo, ég býst við að ákvörðun mín komi ykkur ekki í opna skjöldu og þið farið að fylgjast með reglulega, æfa suðræna hreiminn ykkar og öskra á mig í röðinni á kaffibarnum: "Hey, þetta er Katrín. Kapteinn Katrín. Sjáið öll saman. Hættum þessu helvítis rugli og förum heim, lesum góða bók og fróum okkur áður en við sofnum. Það er einhvern vegin aðeins minna niðurlægjandi en þetta."

En nóg um það hvað ég hata margt. Í ljósi þess hversu oft ég kem með yfirlýsingar á þessu bloggi hér, um hvernig að nú muni allt breytast til hins betra og hér með muni ég hætta að væla, eða hætta að skrifa um hvað ég hata Kaffibarinn mikið og fylgi þeim aldrei nokkurn tíman eftir, ætla ég að láta hér fylgja örlítið öpdeit á lífi mínu sem þið, kæru aðdáendur, hafið misst af í gegnum árin.

Yfirlýsing endar.
Blogg byrjar.

Þegar við skildum við söguna síðast bjó ég sældarlífi í Kaupmannahöfn. Vinnan mín hafði brunnið niður ásamt einum af betri skemmtistöðum Danmerkur. Ég var atvinnulaus og á leiðinni til Íslands aftur. Eftir þá færslu kom ég með smá follow-up af gamalli færslu sem allir kannast við, Slæma Stefnumótið. Þar kynnti ég til sögunnar genabreyttan frakka sem af einhverjum ástæðum skildi íslensku og var ekki sáttur við stefnumótafærni mína og lét í sér heyra. Og síðasta færslan var síðan óskýr klippa úr táningamyndinni Clueless þar sem aðalsöguhetjan fellur á bílprófinu sínu.

Ég, hins vegar, náði mínu. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ökukennarans míns, tíu mínútum fyrir próf, að ég kynni ekki að keyra fyrir fimmaur. Feis á hann. Eftir þennan persónulega sigur fór ég að vinna við Mannaveiðar, spennuþætti í framleiðslu fyrir Ríkissjónvarpið. Þar klessti ég þrjá bíla. Feis á mig.

Af frakkanum góða er lítið að frétta. Hann sendir mér hins vegar skilaboð eftir skilaboð á félagsvefnum feisbúkk þar sem hann reynir að taka upp þráðinn og ég hef kosið að svara ekki. Ég er búin að særa nóg af frönskum hjörtum.

Eftir að verkefninu Mannaveiðar var lokið datt ég inn í örlitla vinnu í stuttmynd, í viku eða svo. Ég klessti engan bíl. Feis á hann.

Til þess að taka saman bílafeisin í þessum texta, svo allir geti fylgst með, þá er staðan svona. Ég: Eitt Feis. Ökukennari: Tvö Feis. Ég vinn.

Sögunni líkur þó ekki þar, kæru lesendur. Á meðan á þessari katóstrófíu stóð flutti ég einnig búferlum með platónska elskhuga mínum, Guðnýju Hrafnkelsdóttur. Eftir mikla og örvæntingafulla leit að stað til að búa á, fjarri glaumi fjölskyldunnar, datt upp í hendurnar á okkur díll, sem var of góður til að vera sannur. Nema að hann var sannur. Feis á íbúðamálaráðherra. Nú höfum við búið um okkur í Vesturbænum, ég sef á bakvið hillu og hún í herbergi og unum við okkur vel.

Ég er bjartsýn. Þetta lítur vel út. Í dag er nýr dagur.

Inga er yndislegust! Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com